Verðbólgan, það er vísitala neysluverðs fyrir 12 mánuði, mun lækka úr 3,7% í 3,6%, gangi ný spá Íslandsbanka um 0,2% lækkun vísitölunnar í janúar frá fyrri mánuði.

Segir bankinn í greiningu sinni að útlit sé fyrir að verðbólgan haldist að meðaltali í 3,6% út árið, en fari svo niður í 3,2% að jafnaði á næsta ári. Hagstofan birtir svo janúarmælingu sína 20. janúar næstkomandi.

Bendir bankinn á að í janúar sé iðulega togstreita milli annars vegar áhrifa af útsölum og lækkun flugfargjalda og hækkunar ýmis konar gjaldskráa opinberrar þjónustu og hjá einkafyrirtækjum.

Hækkun gjalda á eldsneyti vegur upp heimsmarkaðsverðslækkunina

Nú gerir bankinn ráð fyrir að janúarútsölurnar hafi svipuð áhrif og síðustu ár, og nefna þar sérstaklega verð á fötum og húsgögnum og heimilisbúnaði ýmis konar. Könnun bankans sýnir jafnframt að 24% hækkun flugfargjalda í desember gangi til baka um 12% nú í janúar.

Hins vegar mun reiknuð húsaleigu hækka um 0,9%, en hún byggir á þróun íbúðaverðs sem verið hefur undir minni þrýstingi til hækkunar undanfarið. Til viðbótar er áhrif veikingar krónunnar á seinni helmingi síðasta árs enn að koma fram í verði innfluttra vara.

Hækkun á gjöldum verður nokkuð, en þó hóflegri á veitugjöldum ýmis konar, en hækkun krónutölugjalda á eldsneyti mun að mestu vega upp lækkandi innkaupsverð vegna lækkunar heimsmarkaðsverðs olíu. Samkvæmt þeirra mælingu hefur eldsneytisverð þó lækkað um 0,3% frá desember.

Spá bankans næstu mánuði:

  • 0,6% hækkun VNV í febrúar
  • 0,4% hækkun VNV í mars
  • 0,2% hækkun VNV í apríl

Telur bankinn að verðbólgan muni ná hámarki í 3,8% á þriðja ársfjórðungi en að hún fari niður í 3,3% í árslok, og miðað við áðurnefnda 3,2% spá næsta árs mun hún haldast innan 4% þolmarka verðbólgumarkmiðs Seðlabankans. Þó telur bankinn nokkuð í að verðbólgan eigi afturkvæmt í 2,5% markmiðið sjálft.

Í spánni gerir bankinn ráð fyrir að læk muni hækka svipað hratt á yfirstandandi ári og raunin var í fyrra, en að sjálfsögðu eru kjarasamningarnir á næstu mánuðum stærsti óvissuþáttur spárinnar. Það sé nefnilega talsverð hætta á að hækkunin verði meiri eða að önnur skilyrði kjarasamninganna gagnvart hinu opinbera geti leitt til meiri verðbólguþrýstings.

Loks gerir bankinn ráð fyrir því að íbúðaverð hækki hægar eftir því sem líður á spátimabilið, en einnig að krónan haldist í svipuðu gengi og síðustu vikurnar, sem virðist vera jafnvægisgegni hennar nú.