Þó að stjórnendur bílaumboðanna vilji fara varlega í spár um sölu næsta árs vegna óvissu með gengisskráningu er ljóst að gríðarlegur samdráttur verður á sölu. Að sögn Egils Jóhannssonar, framkvæmdastjóra Brimborgar, gætu svartsýnustu spár þýtt minnstu bílasölu í 30 ár á næsta ári.

,,Ég tel ekki ólíklegt að það verði minnsta sala í 20 til 25 ár,“ sagði Egill. Árið 1976 seldust um 3000 bílar hér á landi. Úlfar Steindórsson, framkvæmdastjóri Toyota á Íslandi, sagði að það dyldist engum að næsta ár yrði erfitt en svo væri reiknað með því að árið 2010 sjái menn að þetta fari að síga uppávið þótt enginn eigi von á stórum stökkum. Úlfar sagði að mjög erfitt væri að setja saman áætlanir um sölu næsta árs og þær væru mjög á reiki.

,,Á meðan við sjáum ekki hvar gengisvísitalan stillir sig af, sem hún gerir að lokum, er ómögulegt að átta sig á því hvar þetta lendir. Ef við skoðum söguna þá hafa þessi minnstu bílaár farið niður í 5.000 bíla. Auðvitað er alltaf einhver endurnýjunarþörf og ef ferðaþjónustan heldur áfram að vaxa og dafna sjá bílaleigurnar góð ár. En á meðan við áttum okkur ekki á hvar gengið verður er erfitt að gefa út einhverjar tölur.“

Úlfar Hinriksson, framkvæmdastjóri Suzuki á Íslandi, segir að í raun sé engin leið að segja til um sölu næsta árs, hugsanlega geri menn ekki mikið meira en að selja út af lagerum hjá sér. Í niðursveiflunni 1992 og 1993 fór salan niður í 6000 bíla nokkur ár í röð. Hann sagði að það væri varla að vænta meiri sölu en fjögurra til fimm þúsund bíla.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .