Gengi bréfa Icelandair Group hækkaði í kjölfar birtingar á afkomu félagsins á öðrum ársfjórðungi en hún var allnokkuð betri en almennt hafði verið reiknað með. IFS Greining uppfærði verðmat sitt á Icelandair strax í kjölfarið og gerir nú ráð fyrir að gengi bréfa Icelandair Group muni hækka í 7,8 á næstu sex mánuðum en markgengið samkvæmt fyrra mati var 7,0.

Þegar Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, stóð í pontu á fjárfestafundi í upphafi ársins og boðaði verulega aukin umsvif félagsins og aukningu í tekjum lá í loftinu að menn hefðu kannski ekki fulla trú á því að það myndi ganga eftir, kannski ekki síst vegna fyrirsjáanlegrar aukinnar samkeppni í flugi til og frá Íslandi með tilkomu nýs flugfélags, en eins vegna dökkra skýja yfir efnahagsmálum í Evrópu og þar með heimsins alls.

En reyndin er þvert á móti sú að þeir sem keyptu sig inn í Icelandair Group á genginu 2,5 fyrir tæpum tveimur árum, sem voru fyrst og fremst lífeyrissjóðir, hafa ávaxtað fé sitt nánast ævintýralega eða um 180%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.