Vísitala neysluverðs mun hækka um 0,4% í mánuðinum og verðbólga haldast óbreytt í 4,3%, samkvæmt verðbólguspá greiningar Íslandsbanka. Greiningardeildin býst við að verðbólga haldist lítið breytt næstu mánuði.

Í Morgunkorni Greiningar segir að verðbólguspáin sé í raun fremur tíðindalítil miðað við undanfarna mánuði. Veiking krónu frá í ágúst hafi einhver áhrif til hækkunar en þó virðist áhrifin hófleg enn sem komið er. Á móti megi greina áhrif aukinnar samkeppni á matvörumarkaði í verðþróun mat- og drykkjarvara, og telji deildin því líkur á að matvöruverð hækki aðeins um um 0,5% þrátt fyrir að krónan hafi veikst.

Í verðbólguspá Greiningar Íslandsbanka segir sömuleiðis að gert sé ráð fyrir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,8% á síðasta fjórðungi ársins. Verði það raunin helst verðbólga áfram á svipuðum slóðum og mælast 4,4% í lok árs.

Þá segir greiningardeildin að horft fram á veg megi búast við að verðbólga muni hjaðna nokkuð á fyrri helmingi næsta árs og mælast 3,1% um mitt árið, 3,8% í lok árs 2013 og 3,6% eftir tvö ár.

„Sú forsenda liggur til grundvallar spánni að árstíðasveifla verði áfram veruleg í gengi krónu, en að á heildina litið verði gengi hennar svipað og síðastliðið ár. Vart þarf að taka fram að verði gengisþróunin ólík þeirri forsendu mun verðbólguþróunin að sama skapi verða önnur en hér er spáð,“ segir í Morgunkorninu.