*

miðvikudagur, 25. nóvember 2020
Innlent 1. október 2020 15:10

Spá óbreyttum 1% stýrivöxtum

Landsbankinn spáir því að seðlabankinn muni ekki hreyfa við stýrivöxtum í næstu vaxtaákvörðun á miðvikudag.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Peningastefnunefnd Seðlabankans tekur stýrivaxtaákvörðun í næstu viku, og spáir Landsbankinn því að nefndin muni ekki lækka stýrivexti frekar samkvæmt nýrri Hagsjá.

Seðlabankinn hefur nú þegar lækkað vexti fjórum sinnum, alls um 2 prósentustig, á þessu ári, en síðasta lækkun var í 20. maí síðastliðinn, þá um 0,75 prósentustig, eftir að hafa lækkað fyrst um 0,25 prósentustig í febrúar og tvisvar um hálft prósent með viku millibili í mars.

Gripið var til þeirra aðgerða í fyrstu bylgju kórónuveirufaraldursins í vor, en nú eftir tiltölulega hóflega seinni bylgju Covid 19 í ágúst sé nú útlit fyrir að bylgjan nú í september sé mun alvarlegri.

Þó ekki hafi verið gripið til jafnvíðtækra sóttvarnarráðstafana enn sem komið er og í fyrstu bylgjunni telur Landsbankinn að útlit sé fyrir að efnahagslegu áhrfin af þriðju bylgjunni geti verið töluverð. Nú sé ljóst að kjarasamningar á vinnumarkaði haldi, með kjarasamningsbundnum hækkunum um áramótin, en til þess þurfti aðgerðir stjórnvalda sem kosta 25 milljarða króna.

Gjaldeyriskaupin útslitaatriði

Vaxtastigið mun því að mati Landsbankans velta á því hvort Seðlabankanum takist að koma stöðugleika á gengi krónunnar með aðgerðum sínum til kaupa á gjaldeyri en bankinn hyggst selja allt að 240 milljónir evra, andvirði 40 milljarða króna til þess.

En samhliða veikingu krónunnar, en evran fór úr 163 krónum 26. ágúst í 166 krónur 9. september þegar tilkynnt var um aðgerðir Seðlabankans, hefur verðbólgan aukist. Hún mældist 2,2% í apríl en var komin í 3,5% nú í september.

Verðbólga á þriðja fjórðungi var 3,2% en Seðlabankinn hafði í ágúst spáð því að hún yrði 3%. Ef verðbólga væri nálægt markmiði mætti færa góð rök fyrir frekari vaxtalækkun segir í Hagsjánni.

Það að lækka vextina nú með verðbólgu í 3,5% verði hins vegar að teljast ólíklegt skref hjá nefndinni. Hækkun vaxta er einnig veruleg ólíkleg, enda gríðarlegur framleiðsluslaki í hagkerfinu um þessar mundir sem endurspeglast m.a. í háu atvinnuleysi.

Því telur Landsbankinn að Seðlabankinn muni frekar beina kröftum sínum á gjaldeyrismarkaði en í að hreyfa við vaxtastiginu, því með stöðugu gengi séu líkur á að verðbólgan hjaðni fljótt á næsta ári.