Greiningardeild Íslandsbanka spáir því að peningastefnunefnd Seðlabankans muni halda stýrivöxtum bankans óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunarfundi, sem haldinn verður 20. ágúst næstkomandi.

Rökin fyrir óbreyttum vöxtum verða að mati greiningardeildar þau að verðbólga sé við verðbólgumarkmið, krónan stöðug og verðbólguhorfur góðar.

Greiningardeildin spáir því jafnframt að stýrivöxtum verði haldið óbreyttum allt árið. Hins vegar muni verðbólgan aukast nokkuð þegar kemur fram á næsta ár sem leiði til aukins aðhalds í peningamálum í formi hækkunar stýrivaxta. Þannig spáir greiningardeildin að stýrivextir verði hækkaðir snemma á næsta ári, og verði alls hækkaðir þrisvar á árinu, um alls 0,75 prósentur.

Ef þetta gengur eftir verða stýrivextir Seðlabankans komnir upp í 6,75% í lok árs 2015. Greiningardeildin spáir síðan einni 0,25 prósentustiga hækkun árið 2016.

Hagfræðideild Landsbankans hefur einnig spáð því að stýrivöxtum verði haldið óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunarfundi.