Greiningardeild Arion banka spáir því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákveði að halda stýrivöxtum óbreyttum á fundi sínum í næstu viku. Í Markaðspunktum greiningardeildarinnar segir að spáin byggi einkum á því að verðbólgutölur í september voru mun lægri en reiknað var með og að verðbólga sé að aukast mun hægar en Seðlabankinn gerði ráð fyrir í Peningamálum í ágúst.

Það breyti því ekki að deildin telur að Seðlabankinn muni ítreka þá skoðun sína að óviðunandi verðbólguþrýstingur sé í kortunum, aðallega vegna launaþróunar, og það kalli á aukið taumhald. Vitnað er í yfirlýsingu peningastefnunefndar frá síðustu vaxtaákvörðun: „Aukist verðbólga í framhaldi af kjarasamningum eins og spáð er mun peningastefnunefnd þurfa að hækka vexti enn frekar eigi verðbólgumarkmiðið að nást til lengri tíma litið. Hve mikið og hve hratt mun ráðast af framvindunni og hvernig greiðist úr þeirri óvissu sem er nú til staðar“. Þannig hafi nefndin opnað á að aðhaldsaðgerðir, hagræðing eða önnur kostnaðarþróun hjá atvinnulífinu kynni að hafa áhrif á næstu ákvarðanir nefndarinnar.

Spá Greiningardeildar gerir ráð fyrir að verðbólga verði í 2,5% í lok þessa árs. Þá áætlum við að verðbólga verði að meðaltali 2,4% á síðasta ársfjórðungi sem er töluvert lægra en Seðlabankinn gerði ráð fyrir en hann spáði 3,8% verðbólgu í síðustu Peningamálum.

Spá greiningardeildar Arion banka er sú sama og Greining Íslandsbanka gaf út í gær, en þar er einnig gert ráð fyrir óbreyttum stýrivöxtum.