Tilkynnt verður um ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands á næsta miðvikudag, þann 10. febrúar. Þá verður tilkynnt um hvort Seðlabankinn muni breyta stýrivöxtum, eða hækka eða lækka þá. Á sama tíma verður uppfært mat stofnunarinnar um þjóðhags og verðbólguspá birt.

Að mati Hagsjárinnar hefur þróun verðbólguhagvísa verið tíðindalítil frá síðasta fundi peningastefnunefndar sem var haldinn 9. desember á síðasta ári. Verðbólga er á svipuðm slóðum en krónan hefur styrkst lítillega.

Hagfræðideildin telur að það sem helst hafi gerst er að kjarasamningur byggður á SALEK-samkomulaginu var gerður nú á dögunum, en hann á eftir að fara í samþykktarferli. Alls yrðu beinar hækkanir vegna samningsins um 15% á tímabilinu sem hann myndi gilda.

Kjarasamningurinn gæti orðið íþyngjandi fyrir ríkisfjármálin á næstu misserum auk þess sem kostnaður atvinnurekenda mun aukast mikið á næstu mánuðum. Það mun að mati hagfræðideildarinnar væntanlega ýta á verðbólguþrýsting.