Greiningardeildir íslensku viðskiptabankanna þriggja gera ráð fyrir því að Seðlabankinn haldi óbreyttum stýrivöxtum, en vaxtaákvörðun verður kynnt á morgun.

„Í ljósi viðvarandi verðbólguþrýstings væntum við þess að bankastjórn haldi stýrivöxtum bankans óbreyttum í 15,5% á morgun enn um sinn til að varna víxlhækkun verðlags, launa og gengis erlendra gjaldmiðla gagnvart krónu og veita verðbólguvæntingum traust akkeri,“ segir í Morgunkorni Glitnis.

Greiningardeild Landsbankans tekur í sama streng og bendir í Vegvísi á að í spá Seðlabankans síðan í júlíbyrjun um verðbólgu og stýrivexti er gert ráð fyrir óbreyttum vöxtum fram á 1. ársfjórðung 2009. Þrátt fyrir að verðbólga hafi síðan verið yfir spá Seðlabankans, þá séu komnar fram vísbendingar um kólnun hagkerfisins, væntingavísitala Gallup sé í sögulegu lágmarki og kólnun á vinnumarkaði sé yfirvofandi. Þetta styðji þá spá að vöxtum verði haldið óbreyttum.

Vaxtahækkun ekki óhugsandi

Í Hálffimm fréttum Kaupþings er jafnframt spáð óbreyttum stýrivöxtum en þar er þó einnig tekið fram að vaxtahækkun sé ekki óhugsandi.

„Verðbólga hefur reynst hærri en spár Seðlabankans gerðu ráð fyrir við útgáfu Peningamála í júlí sl., jafnvel þótt gengi krónunnar sé ekki fjarri því sem spáð var. Þróunin hefur raunar verið í ágætu samræmi við fráviksspá Seðlabankans í útgáfu síðustu Peningamála þar sem talið er nauðsynlegt að hækka stýrivexti um allt að 125 punkta að því gefnu að verðbólga sé hærri og krónan veikari en grunnspá reiknaði með. Með þetta í huga er ekki hægt að útiloka vaxtahækkun á morgun til að undirstrika þá ætlun Seðlabankans að ná verðbólgu niður þrátt fyrir mikinn stríðskostnað,“ segir í Hálffimm fréttum.

Þar er þó einnig bent á að stýrivaxtahækkun nú mundi hafa takmörkuð áhrif á verðbólgu til skamms tíma þar sem talið er að a.m.k. 6-12 mánaða töf sé á leiðni peningamálastefnunnar yfir í raunhagkerfið.

„Raunar gæti hækkun vaxta nú haft þveröfug áhrif og grafið enn frekar undan gengi krónunnar og útlitinu fyrir hagkerfið í heild sinni – svo ekki sé minnst á fjármálalegan stöðugleika,“ segir í Hálffimm fréttum.