*

laugardagur, 27. nóvember 2021
Innlent 1. október 2018 14:41

Spá óbreyttum stýrivöxtum

Greiningardeild Íslandsbanka spáir óbreyttum stýrivxötum, en segir ákvörðunina verða erfiðari en undanfarið.

Ritstjórn
Höfuðstöðvar Íslandsbanka í norðurturni.
Haraldur Guðjónsson

Greiningardeild Íslandsbanka spáir óbreyttum stýrivöxtum á vaxtaákvörðunarfundi á miðvikudaginn. Peningastefnunefnd muni hinsvegar standa frammi fyrir talsvert erfiðara mati en undanfarið.

Bent er á að ýmislegt mæli með hækkun stýrivaxta. Skammtíma verðbólguhorfur hafi versnað í kjölfar veikingar krónunnar og vegna óvissu um launaþróun, á sama tíma og þjóðhagsreikningar fyrri árshelmings sýni myndarlegan hagvöxt og talsverða aukningu innlendrar eftirspurnar.

Hinsvegar mæli á sama tíma ýmislegt með lækkun stýrivaxta. Vísbendingar séu um minnkandi spennu í hagkerfinu og talsvert hægari hagvöxt, verðbólguvæntingar séu innan seilingar við markmið, verulega hafi hægt á hækkun fasteignaverðs, og enn sé töluverður vaxtamunur við útlönd.

Deildin býst við að seðlabankinn muni gefa í skyn að í vændum sé hækkun stýrivaxta, en það velti þó á þróun langtíma verðbólguvæntinga hvort bankinn muni standa við það.