Greiningardeild Arion banka spáir því að Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákveði að halda vöxtum óbreyttum á fundi sínum í næstu viku. Stýrivextirnir verði því áfram 4,5%.

Fundargerðir Peningastefnunefndar beri með sér að yfirleitt velti hún fyrir sér tveimur kostum. Undanfarið hafi valið staðið á milli óbreyttra vaxta eða vaxtahækkunar. Hækkandi raunvextir, hægari vöxtur í innlendri eftirspurn á síðasta fjórðungi 2018, samdráttur í kortaveltutölum og lækkun á verðbólgu úr 3,4% í 3,0% ætti hins vegar að slá hækkun út af borðinu að mati greiningardeildar. Að sama skapi sé erfitt að sjá fyrir sér vaxtalækkun í ljósi stöðunnar á vinnumarkaði og síðustu hagvaxtartalna. Því komi varla annað til greina en að nefndin haldi vöxtum óbreyttum.