*

fimmtudagur, 14. nóvember 2019
Innlent 26. september 2019 18:00

Spá óbreyttum stýrivöxtum

Íslandsbanki spáir óbreyttum stýrivöxtum í október en segir vaxtalækkunarferlinu ekki lokið

Ritstjórn
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ræður næst ráðum sínum þann 2. október nk..
Haraldur Guðjónsson

Greining Íslandsbanka spáir því að peningastefnunefnd Seðlabankans muni ekki hreyfa við stýrivöxtum við næstu vaxtaákvörðun bankans þann 2. október. Vaxtalækkunarferli bankans sé þó ekki lokið heldur eigi vextir eftir að lækka að minnsta kosti einu sinni fyrir árslok. 

 „Við ákvörðun peningastefnunefndar nú munu væntanlega takast á sjónarmið um að annars vegar staldra við og fylgjast með þróun verðbólgu, útkomu kjarasamninga við opinbera starfsmenn og því hvernig haustið fer í ferðaþjónustuna, og hins vegar þrýsta raunstýrivöxtum enn frekar niður til að liðka fyrir fjárfestingu og bæta rekstrarskilyrði þeirra fyrirtækja sem eiga undir högg að sækja þessa dagana,“ segir í greiningu Íslandsbanka.

„Við gerum ráð fyrir að fyrrnefndu rökin vegi þyngra að þessu sinni en útilokum þó ekki vaxtalækkun. Í ágúst voru nefndarmenn á því að mikilvægt væri að stíga varlega til jarðar í vaxtalækkunarferlinu um þessar mundir þar sem ákveðnar blikur væru á lofti um innlendan verðbólguþrýsting á næstunni. Hins vegar voru allir nefndarmenn sammála um vaxtalækkun í ágúst og var önnur niðurstaða raunar ekki rædd að ráði ef marka má fundargerð síðasta vaxtaákvörðunarfundar. Framsýna leiðsögnin við vaxtaákvörðunina í ágúst var hins vegar hlutlaus og hljóðaði svo:

Peningastefnan mun á næstunni ráðast af samspili þróunar efnahagsumsvifa annars vegar og verðbólgu og verðbólguvæntinga hins vegar.

Ekki hefur orðið afgerandi breyting á þessu samspili á þeim vikum sem liðnar eru frá vaxtaákvörðuninni í ágúst að mati okkar.“