*

laugardagur, 30. maí 2020
Innlent 30. janúar 2020 08:33

Spá óbreyttum stýrivöxtum

Hagfræðideild Landsbankans telur fátt benda til þess að hróflað verði við vöxtum á næsta fundi peningastefnunefndar.

Ritstjórn
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Gígja Einars

Fyrsti fundur peningastefnunefndar á nýju ári verður haldinn á fimmtudaginn í næstu viku. Stýrivextir bankans eru 3,0% í dag og lækkuðu um 1,5 prósentustig á síðasta ári. Síðasta vaxtalækkun var í nóvember en þá voru vextirnir lækkaðir um 0,25 prósentustig.

Á fundi sínum í desember ákvað nefndin að halda vöxtunum óbreyttum. Hagfræðideild Landsbankans spáir því að það sama verði uppi á teningnum í næstu viku, nefndin haldi vöxtum óbreyttum.

„Þegar vextir voru síðast lækkaðir var í yfirlýsingu nefndarinnar tekið fram að það vaxtastig ætti að duga til að tryggja verðstöðugleika til meðallangs tíma og fulla nýtingu framleiðsluþátt,“ segir í Hagsjá Landsbankans, sem birt var í morgun. „Í ljósi þess að engar afgerandi upplýsingar um stöðu hagkerfisins hafa borist síðan er fátt sem bendir til þess að hróflað verði við vöxtum að þessu sinni. Tölur um hagvöxt á fjórða ársfjórðungi síðasta árs liggja ekki fyrir fyrr en í lok febrúar. Hagfræðideild telur líklegt að Peningastefnunefndin vilji halda vöxtum óbreyttum núna og eiga þannig inni fyrir vaxtalækkun þegar fram líða stundir, komi í ljós að krafturinn í hagkerfinu sé minni en búist var við.“

Verðbólga undir markmiði

Verðbólga hefur lækkað síðustu mánuði og mældist 2,0% í desember samanborið við 2,7% í nóvember. Nýjustu tölur Hagstofunnar, sem birtar voru nú í morgun, sýna að á síðustu 12 mánuðum er verðbólgan 1,7%.

„Auk þess hefur verðbólguálag á skuldabréfamarkaði lækkað frá síðasta fundi nefndarinnar,“ segir í Hagsjánni. „Þetta gerir það að verkum að raunstýrivextir hafa hækkað. Haldist verðbólga áfram undir markmiði kann það að kalla á frekari lækkun vaxta þegar fram líða stundir, sé það markmið nefndarinnar að halda aðhaldsstigi peningastefnunnar óbreyttu frá því sem það var við vaxtaákvörðunina í nóvember.

Það eru vísbendingar um að krafturinn í hagkerfinu kunni að vera vanmetinn og því minni þörf á frekari vaxtalækkunum en ella. Greiðslukortavelta jókst t.a.m. heldur meira milli ára á fjórða ársfjórðungi síðast árs samanborið við fyrri fjórðunga ársins sem gæti verið vísbending um kraftmeiri vöxt einkaneyslu á síðari hluta árs.“

Breytingar í Peningastefnunefnd

Fundur Peningastefnunefndar í desember var síðasti fundur nefndarmannsins Þórarins G. Péturssonar en hann er sá nefndarmaður sem hefur oftast greitt atkvæði gegn ákvörðun nefndarinnar.

„Hann vildi halda vöxtum óbreyttum í júní í fyrra á sama tíma og aðrir vildu lækka vexti,“ segir í Hagsjá Landsbankans. „Árið 2018 greiddi hann tvívegis atkvæði gegn meirihluta þegar hann taldi rétt að hækka vexti á sama tíma og aðrir vildu halda þeim óbreyttum eða hækka minna. Gunnar Jakobsson tekur sæti Þórarins í nefndinni og verður fróðlegt að sjá hvort hann feti í fótspor forvera síns sem helsti vaxtahaukur nefndarinnar. Gunnar hefur þó ekki störf fyrr en í mars og verða nefndarmenn því einungis fjórir á næsta fundi. Aðrar breytingar framundan eru þær að vaxtaákvörðunardögum fækkar á næsta ári úr 8 í 6 þar sem fundir nefndarinnar í júní og desember verða felldir niður.“