Seðlabankinn mun kynna vaxtaákvörðun sína á miðvikudaginn. Greiningardeild Landsbankans telur að Seðlabankinn muni standa við þann lækkunarferil sem hann birti í Peningamálum í lok mars. Stýrivextir muni því ekki lækka  fyrr en í nóvember og verða 13,75% um áramótin.


Greiningardeild Landsbankans bendir á að mikil breyting varð á framsetningu spár Seðlabankans í lok mars. Seðlabankinn spáði þá í fyrsta sinn þeim stýrivöxtum sem að hann taldi sennilegasta ef að þróun efnahagsmála yrði í takt við sýn bankans. "Það er ljóst að starfsmenn bankans gera sér fyllilega grein fyrir þeim kostnaði sem að hlytist af því að hvika frá þessum ferli. Það yrði að rökstyðja með óvæntri þróun sem að rétt væri að bregðast við. Seðlabankinn hlýtur að hafa betri vitneskju en aðrir markaðsaðilar um það hvað Seðlabankinn mun gera," segir greiningardeild Landsbankans.