Greining Íslandsbanka spáir því að Seðlabankinn muni ekki hrófla við stýrivöxtum á miðvikudag þegar stýrivaxtaákvörðun peningastefnunefndar verður kynnt. Vextir á viðskiptareikningum innlánsstofnana verða því áfram 3,25% og hámarksvextir innistæðubréfa 4% auk þess sem vextir á lánum gegn veði til sjö daga verða áfram 4,25% og daglánavextir 5,25% gangi spáin eftir.

Lág verðbólga og veiking krónunnar að undanförnu benda til þess að vaxtalækkunarferlinu verði ekki haldið áfram í bili og spáir Greining Íslandsbanka því að stýrivextir haldist óbreyttir út árið.

„Virkir raunstýrivextir eru nú 1,5-2,0%. Líkt og Seðlabankinn hefur bent á þá eru þetta  lægri raunvextir en taldir voru jafnvægisraunvextir fyrir hrun og að mati bankans hugsanlega líka lægri en þeir sem munu ríkja þegar hagkerfið kemst aftur á beinu brautina. En nú þegar hagkerfið er við botn hagsveiflunnar er eðlilegt að raunvextir séu vel fyrir neðan það sem til lengdar mun gilda. Hækkun raunstýrivaxta er samt væntanleg litið til lengri tíma.

Reikna má fastlega með því að í næstu yfirlýsingu peningastefnunefndarinnar verði endurtakið að óvissa sé um í hvaða átt næsta vaxtabreyting muni verða. Framundan er afnám gjaldeyrishafta sem kann að kalla á hærri vexti á sama tíma og slakinn í hagkerfinu ástamt lágri verðbólgu gefur svigrúm fyrir vaxtalækkun. Reiknum við með því að verðbólgan muni haldast undir eða við verðbólgumarkmið bankans næstu 1-2 árin og að krónan haldist nokkuð stöðug. Í því ljósi væntum við þess að nefndin haldi vöxtum bankans óbreyttum á næstunni, en þó með þeim skorðum sem uppbygging fjármálakerfisins og áætlun um afnám gjaldeyrishafta setja vaxtastefnunni. Reiknum við með því að nefndin taki að hækka vexti bankans á ný árið 2012 tengt viðsnúningi í hagkerfinu og afnámi gjaldeyrishafta,“ segir í Morgunkorni Íslandsbanka.