Greiningardeild Arion banka spáir því að Seðlabanki Íslands haldi stýrivöxtum óbreyttum næstkomandi miðvikudag, þegar ákvörðun peningastefnunefndar verður kynnt. Í umfjöllun sinni segir greiningardeildin að það sem hafi breyst frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi sé að verðbólga var heldur hærri í febrúar en almennt var búist við og að verðbólguhorfur hafi versnað til skamms tíma vegna hrávöruverðshækkana erlendis. „Seðlabankinn hefur sjálfur sagt að hann bregðist ekki við óróa úti í heimi með vaxtahækkun enda skili það engu,“ segir í Markaðspunktum greiningardeildum Arion banka.

Telur greiningardeildin að þessi atriði, þrátt fyrir mikilvægi þeirra, hrökkvi skammt í þeirri óvissu sem Icesave málið hefur skapað fyrir Seðlabankann. „Meðan þjóðin gerir upp hug sinn teljum við afar ólíklegt að Seðlabankinn umbuni eða refsi þjóðinni, þ.e. með vaxtahækkun og hvað þá lækkun vaxta. Hvert framhaldið verður mun svo koma í ljós þegar þjóðin hefur kosið.“

Umfjöllun greiningardeildar Arion banka í heild:

Það kvað við nýjan tón í síðustu yfirlýsingu Peningastefnunefndar, en þar var í fyrsta skipti í langan tíma opnað fyrir möguleikann á hækkun vaxta. Ein helsta ástæða þess var sú að vextir væru sögulega lágir og að áætlanir um afnám gjaldeyrishafta hefðu skapað óvissu til skemmri tíma. Þessi nýi tónn er afar athyglisverður ef hann er settur í samhengi við verðbólgu- og hagvaxtarspá Seðlabankans, en í henni er mat bankans að efnahagsbatinn verði veikur og að verðbólgan verði undir markmiði samfleytt næstu þrjú ár eða svo, þættir sem kalla svo sannarlega ekki á hærri vexti að mati Greingardeildar.

Það sem hefur breyst frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi er að verðbólga var heldur hærri í febrúar en almennt var búist við. Einnig hafa verðbólguhorfur versnað til skamms tíma þar sem hrávöruverðshækkanir úti í heimi skila sér í hærra vöruverði hér heima. Seðlabankinn hefur sjálfur sagt að hann bregðist ekki við óróa úti í heimi með vaxtahækkun enda skili það engu.

Þrátt fyrir að þessir hlutir sem týndir eru til hér að ofan séu mikilvægir þá hrökkva þeir skammt í þeirri óvissu sem Icesave málið hefur skapað fyrir Seðlabankann . Meðan þjóðin gerir upp hug sinn teljum við afar ólíklegt að Seðlabankinn umbuni eða refsi þjóðinni, þ.e. með vaxtahækkun og hvað þá lækkun vaxta. Hvert framhaldið verður mun svo koma í ljós þegar þjóðin hefur kosið.

Seðlabankanum er illa við óvissu

Segja má að Seðlabankinn sé á nokkurs konar „óvissumarkmiði“ þar sem ávallt er verið að bíða eftir því að einhver mál skýrist en undirliggjandi aðstæður í hagkerfinu eru ekki látnar njóta vafans. Oft hefur óvissan tengst yfirvofandi afnámi gjaldeyrishafta, endurskoðun AGS (svo afnám gjaldeyrishafta geti hafist), áhættuleiðréttum vaxtamun (svo afnám gjaldeyrishafta geti hafist) ásamt því sem óvissa um stöðu bankanna vegna gengistryggðra lána hægði á vaxtalækkunum um mitt árið svo dæmi séu tekin. Til gamans er rifjuð upp málsgrein úr stefnuyfirlýsingu Peningastefnunefndar sem var m.a. rökstuðningur fyrir óbreyttum vöxtum.

Yfirlýsing Peningastefnunefndar ágúst 2009

„Engin skýr merki eru um að lækkun stýrivaxta fyrr á þessu ári eigi umtalsverðan þátt í því að farið sé í kringum höftin, að innstæður á gjaldeyrisreikningum hafi aukist, eða að hún skýri almennt lágt gengi krónunnar. Þó er ekki heldur hægt að útiloka slík tengsl. Á meðan krónan er jafn veik og hún hefur verið undanfarna mánuði eru því sterk rök gegn frekari lækkun stýrivaxta.“ (4.málsgrein)

Þrátt fyrir að málsgreinin lýsi að mörgu leyti ólíkum aðstæðum sem eru uppi í dag þá hefur hún afar sterka skírskotun í núið. Ef óvissa er til staðar um einhver af helstu markmiðum Seðlabankans; þ.e um stöðugleika gengis og verðbólgu og þau fjölmörgu atriði sem tengjast þeim, þá mun sú óvissa ávallt verða túlkuð vöxtum í óhag.

Það eru vissulega margir óvissuþættir sem hagkerfið þarf að kljást við þessa dagana og eru þeir flestir til þess fallnir að hægja á efnahagsuppbyggingu landsins. Má þar nefna óvissuþætti í tengslum við afnám hafta, skuldastöðu fyrirtækja og flókið regluverk hins opinbera. Allt eru þetta óvissuþættir sem munu eflaust fylgja okkur áfram.

Ljóst er þó að óvissan í íslensku efnahagslífi hefur sjaldan eða aldrei verið meiri ef þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave samningana er bætt við jöfnuna. Verði niðurstaðan jákvæð getur Seðlabankinn haldið ótrauður út í „þekkta“ óvissu. Verði samningnum hafnað tekur við ástand sem Seðlabankanum er illa við, þ.e. enn þá meiri óvissa.

Undir slíkum kringumstæðum teljum við miklar líkur á að öllum stórum áformum um afnám gjaldeyrishafta verði slegið á frest. Ekki er hægt að útiloka að Seðlabankanum gefist þá færi á að lækka vexti enn neðar þar sem yfirvofandi afnám gjaldeyrishaftanna væri ekki lengur í veginum. Hins vegar má einnig sjá fyrir sér stóraukin gjaldeyriskaup Seðlabankans (til að stækka óskuldsettan gjaldeyrisforða) sem myndu e.t.v. kalla á hærri vexti til að halda krónunni stöðugri á móti. Of snemmt er þó að fara út í frekari bollaleggingar um möguleg viðbrögð Seðlabankans fyrr en niðurstaða kosninganna í apríl liggur fyrir.

Hvað sagði S.Í. fyrir síðustu þjóðaratkvæðagreiðslu?

Áhugavert er að lesa síðustu yfirlýsingu Peningastefnunefndar þegar ákvörðun forsetans lá fyrir um að senda fyrri Icesave samninga til þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir rétt um ári síðan. Ekki skyldi ætla að viðbrögðin á næsta fundi verði verulega frábrugðin því sem þá var.

Úr yfirlýsingu Peningastefnunefndar 27.janúar 2010

„Að ekki skuli hafa tekist að leysa deiluna um bætur til innstæðueigendaútibúa Landsbankans erlendis hefur leitt til þess að lánshæfiseinkunn ríkissjóðs hjá einu matsfyrirtækjanna hefur verið lækkuð í áhættuflokk. Það gæti einnig tafið fyrir endurskoðun efnahagsáætlunar stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og orðið til þess að lánveitingar frá sjóðnum og erlendum ríkisstjórnum, sem eru forsenda fyrir árangursríkri lántöku á alþjóðlegum lánamörkuðum, tefjast einnig. Að því gefnu að gjaldeyrishöftin haldi, ættu skammtímaáhrif á krónuna að vera lítil. Hins vegar væri áhættusamt að taka fleiri skref til afnáms gjaldeyrishaftanna á meðan þessi óvissa varir.“

„Svigrúm peningastefnunefndarinnar til vaxtalækkunar verður þó takmarkað svo lengi sem veruleg óvissa ríkir um aðgengi Íslands að alþjóðlegum fjármálamörkuðum.“