Seðlabankinn Stýrivaxtafundur 16.03.11
Seðlabankinn Stýrivaxtafundur 16.03.11
© BIG (VB MYND/BIG)
Greining Íslandsbanka reiknar með að peningastefnunefnd Seðlabankans ákveði að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunar fundi sem er þann 15. júní næstkomandi. Verða vextir á viðskiptareikningum innlánsstofnana því áfram í 3,25% og hámarksvextir 28 daga innistæðubréfa í 4,00%, vextir á lánum gegn veði til sjö daga í 4,25% og daglánavextir 5,25%.

Greining útilokar þó ekki vaxtahækkun. „Slakinn í efnahagslífinu er mikill og aukin verðbólga komin til vegna mikilla hækkana í hrávöruverði á heimsmarkaði og því sem hugsanlega er tímabundin veiking krónunnar. Aukin verðbólga, lækkun krónunnar og ríflegar kjarasamningsbundnar hækkanir í nýlegum samningum valda því þó að við útilokum ekki vaxtahækkun. Verði um hækkun að ræða er þó líklegast að hún verði lítil eða 0,25 prósentur.“

Við síðustu vaxtaákvörðun peningastefnunefndar þann 20. apríl var stýrivöxtum haldið óbreyttum. „Í yfirlýsingu vegna ákvörðunarinnar sagði nefndin að óvissa væri um í hvaða átt næstu vaxtabreytingar yrðu. Peningastefnunefndin sagði sig reiðubúna til þess að breyta aðhaldi peningastefnunnar eins og nauðsynlegt væri með hliðsjón af því tímabundna markmiði hennar að stuðla að gengisstöðugleika og í því skyni að tryggja að verðbólga verði nálægt markmiði til lengri tíma litið. Sögðum við í kjölfar og aðdraganda ákvörðunar að líkur væri á því að vextir bankans yrðu óbreyttir a.m.k. út þetta ár,“ segir Greining.

Umfjöllun Greiningar Íslandsbanka:

Verðbólgan að aukast og krónan að veikjast

„Frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi peningastefnunefndar Seðlabankans hefur verðbólgan aukist nokkuð. Fór hún úr 2,3% í mars í 3,4% í maí. Er þetta nokkuð hraðari aukning verðbólgu en Seðlabankinn reiknaði með, en í yfirlýsingu bankans vegna síðustu vaxtaákvörðunar segir að bankinn vænti þess að verðbólga nái hámarki í rúmlega 3% síðar á þessu ári og haldist svipuð þar til í byrjun næsta árs.

Verðbólguhorfur hafa versnað frá síðustu vaxtaákvörðun og spáum við því nú að verðbólgan muni fara í ríflega 4% síðsumars og haldast yfir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans út allt næsta ár. Verðbólguálag á skuldabréfamarkaði er nú nærri tvöfalt hærra en það var í upphafi árs. Álagið er nú 4,3% til 5 ára, en um áramótin var það 2,1%. Svipaða sögu má segja af verðbólguálagi fyrir aðrar tímalengdir. Þá hafa raunstýrivextir lækkað enn frekar. Hröð aukning verðbólgunnar undanfarið, versnandi verðbólguhorfur og auknar verðbólguvæntingar munu hafa áhrif á vaxtaákvörðun peningastefnunefndar nú.

Gengi krónunnar hefur lækkað um nær 2% frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi peningastefnunefndarinnar og hefur krónan þar með lækkað um ríflega 5,6% það sem af er ári. Gengislækkunin sem varð í upphafi árs og Seðlabankinn taldi að gæti stafað af tímabundnum þáttum á borð við áhrif af aðgerðum þeirra á gjaldeyrismarkaði og árstíðarbundna sveiflu í flæði gjaldeyris til landsins hefur því reynst meira langvarandi en bankinn ætlaði. Skref bankans í afnámi gjaldeyrishafta gætu skýrt lækkun krónunnar nú þó að hún tengist eflaust fleiri þáttum. Líklegt að er gengisþróunin undanfarið muni hafa áhrif á vaxtaákvörðun nefndarinnar nú.

Talsverðar kjarasamningsbundnar hækkanir

Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði sem gerðir hafa verið frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi fela í sér heldur meiri kostnaðarhækkanir en Seðlabankinn hafði byggt inn í sínar verðbólguspár. Má reikna með því að bankinn þurfi að endurskoða verðbólguspá sína til hækkunar vegna þessa. Þó verður að hafa í huga að við síðustu vaxtaákvörðun var peningastefnunefndin búin að fá veður af því hver niðurstaða kjarasamninga yrði hugsanlega.

Við síðustu vaxtaákvörðun peningastefnunefndarinnar lagði seðlabankastjóri til óbreytta stýrivexti. Fjórir nefndarmenn greiddu atkvæði með tillögu seðlabankastjóra en einn var á móti. Sá sem var á móti kaus heldur að hækka vexti um 0,25 prósentur. Þessi nefndarmaður áleit þá þætti vega þyngra sem leiddu til þrálátari verðbólgu, svo sem launaþrýsting, auknar verðbólguvæntingar og hugsanlega veikingu krónunnar. Þróun verðbólgu, verðbólguvæntinga, gengis krónunnar og nýgerðir kjarasamningar munu verða vatn á myllu þessa nefndarmanns nú og hugsanlega afla honum einhverra fylgismanna innan nefndarinnar.

Peningastefnunefndin gerði nokkuð úr því í yfirlýsingu sinni eftir síðustu vaxtaákvörðun að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar um Icesave-samninginn hinn 9. apríl sl. hefði heldur aukið hættu á að krónan veikist, þar sem hún gæti haft áhrif á lánshæfismat ríkissjóðs og þar með lánskjör Íslands á erlendum fjármálamörkuðum. Nú hefur komið á daginn að niðurstaðan hafði áhrif á lánshæfiseinkunn ríkissjóðs í innlendri mynt hjá S&P. Þá hafði niðurstaðan þau áhrif að lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar var lækkað.

Stýrivaxtahækkun hugsanlega á þessu ári

Virkir raunstýrivextir eru nú undir 1%. Líkt og Seðlabankinn hefur bent á þá eru þetta lægri raunvextir en taldir voru jafnvægisraunvextir fyrir hrun og að mati bankans hugsanlega líka lægri en þeir sem munu ríkja þegar hagkerfið kemst aftur á beinu brautina. Nú þegar hagkerfið er við botn hagsveiflunnar er eðlilegt að raunvextir séu vel fyrir neðan það sem til lengdar mun gilda. Væri hægt að færa sterk rök fyrir því að hafa þá enn lægri en þeir eru nú. Hækkun raunstýrivaxta er samt væntanleg litið til lengri tíma og á þessu ári ef gengi krónunnar heldur áfram að gefa eftir og verðbólga að aukast.

Reikna má fastlega með því að í næstu yfirlýsingu peningastefnunefndarinnar verði endurtekið að óvissa sé um í hvaða átt næsta vaxtabreyting muni verða. Framundan er afnám gjaldeyrishafta sem kann að kalla á lægri krónu og hærri vexti á sama tíma og slakinn í hagkerfinu ástamt lágri verðbólgu gefur svigrúm fyrir vaxtalækkun. Reiknum við með því að verðbólgan muni haldast yfir verðbólgumarkmiði bankans næstu 1-2 árin og er ekki ólíklegt að krónan muni veikjast frekar á þeim tíma. Er hvorttveggja hvati fyrir Seðlabankann að hækka vexti. Við teljum víst að nefndin muni verða komin með vexti bankans nokkuð hærra en þeir eru nú á næsta ári tengt viðsnúningi í hagkerfinu, afnámi gjaldeyrishafta, þrýstingi á gengi krónunnar og verðbólguþróun.