Lítið hefur breyst í þróun efnahagsmála frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi peningastefnunefndar Seðlabankans og því líkur á að stýrivöxtum verði haldið óbreyttum á næsta fundi nefndarinnar 2. nóvember. Þetta er mat Hagfræðideildar Landsbankans.

Deildin bendir á það í Hagsjá sinni í dag að flestir greiningaraðilar hafi búist við vaxtahækkun á síðasta vaxtákvörðunardegi fyrir rétt rúmum mánuði. Óbreyttir stýrivextir hafi því komið þeim á óvart.

Hagfræðideildin segir lítið hafa breyst í þróun efnahagsmála sem gefi tilefni til að ætla að nefndin komist nú að annarri niðurstöðu. Þróun á alþjóðavettvangi hafi takmörkuð áhrif á innlenda raunhagkerfið og gætu óbreyttir stýrivextir hugsanlega grafið undan þeim skilaboðum sem send voru út í ágúst.

Hagfræðideildin tekur undir þessar áhyggjur en bendir á að meirihluti peningastefnunefndarinnar hafi á hinn bóginn talið aðra þætti vega þyngra, svo sem hagstæðari verðbólguþróun en spáð var í ágúst, hræringar á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og vísbendingar um veikari alþjóðlegan hagvöxt. Þá hafi gengi krónunnar styrkst frá síðustu vaxtaákvörðun og verð á annarri hrávöru en olíu lækkað á erlendum mörkuðum. Sú þróun dragi úr verðbólguþrýstingi hér á landi.

Deildin bendir sömuleiðis á að verðbólguvæntingar á skuldabréfamarkaði hafi lækkað nokkuð þótt þær séu enn langt yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Í síðustu fundargerð peningastefnunefndarinnar kom fram að meirihluti nefndarmanna væri sammála um að verðbólguhorfur bentu til þess að til lengri tíma litið væri við hæfi að halda áfram að draga úr slaka peningastefnunnar eins og byrjað var á í ágúst. Hagfræðideildin telji hinsvegar ólíklegt að frekara skref í þá átt verði stigið að þessu sinni þótt litlar líkur séu á að vaxtahækkunarferlinu sé lokið.