Greiningardeild Arion banka spáir því að peningastefnunefnd Seðlabankans haldi stýrivöxtum óbreyttum á vaxtaákvörðunarfundi sínum í næstu viku. Deildin segir rökin fyrir því þau að verðbólguhorfur hafi batnað og krónuna styrkst um ríflega 10%. Á móti vegi vaxandi órói á erlendum mörkuðum.

Deildin segir í Markaðspunktum sínum í dag nefndarmenn hafa sett óróann fyrir sig á síðasta fundi. Óvissan hafi síðan þá aukist frekar en hitt og útilokar að það vegi þyngra og leiði til vaxtahækkunar.

Í Markaðspunktunum segir m.a.:

„Vandamál evrusvæðisins eru enn til staðar og engin lausn virðist í sjónmáli. Greiningaraðilar ytra tala jafnvel um að stormur sé í aðsigi ef ekki verður gripið til mikilvægra aðgerða til að koma í veg fyrir að enn dýpri kreppa myndist á evrusvæðinu. Enn sem komið er hefur evrópukrísan ekki haft mikil áhrif hér heima en eftir því sem kreppan hefur dregist á langinn þá er ekki spurningin lengur hvort heldur hversu mikil áhrifin munu verða á íslenskt þjóðarbú. Áhrifin hér heima eru einkum tvíþætt; annars vegar minnkandi útflutningstekjur (lægra afurðarverð og færri ferðamenna sækja landið heim en ella) og hins vegar gæti orðið erfiðara fyrir ríki og fyrirtæki að verða sér út um lánsfé erlendis. Ljóst er að áhyggjur Seðlabankans eru í auknum mæli að beinast að þessum þáttum.“