Hagfræðideild Landsbankans spáir því að peningastefnunefnd Seðlabankans haldi stýrivöxtum óbreyttum í 6,0% á vaxtaákvörðunarfundi sínum í næstu viku. Deildin segir í Hagsjá sinni í dag að frá síðasta fundi nefndarinnar í júní hafi ekkert sérstakt gerst sem kallar á breytingu vaxta.

Hagfræðideildin bendir á að verðbólga hafi hjaðnað á árinu og standi nú í 3,8% sem þó sé yfir verðbólgumarkmiðum og raunstýrivextir í kringum 1% síðan í fyrrahaust án þess að peningastefnunefnd hafi séð ástæðu til að bregðast við. Deildin segir í Hagsjánni:

„Á tveimur síðustu fundum peningastefnunefndar var eingöngu rætt um óbreytta vexti. Þetta er frávik frá venju, en frá því að peningastefnunefndin var skipuð árið 2009 hefur samkvæmt fundargerðum nefndarinnar alltaf verið rætt um fleiri en einn möguleika á viðunandi vaxtastigi. Auk þess hefur oftast að minnsta kosti einn nefndarmaður annað hvort greitt atkvæði gegn tillögu Seðlabankastjóra eða látið bóka að hann hefði kosið aðra ákvörðun. Sá einhugur sem var á seinustu tveimur fundum bendir til þess að meira þurfi að gerast milli funda en ella til að nefndin breyti um skoðun varðandi  hæfilegt vaxtastig.“