Greiningardeild Arion banka spáir því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands haldi stýrivöxtum óbreyttum í desember.

Rök greiningardeildarinnar fyrir óbreyttum vöxtum eru meðal annars óvissa um stefnuna í ríkisfjármálum, órói á vinnumarkaði, óvissa um áhrif losunar fjármagnshafta og óvissa um alþjóðlegar efnahagshorfur, sem hafa aukist undanfarið.

Ef vextir yrðu lækkaðir, telur greiningardeildin að lækkunin yrði um 0,25%. Helstu rök fyrir vaxtalækkun væru aðhald peningastefnunefndarinnar vegna gengishækkunar, minni vaxtamunur við útlönd, sem gæti aukið hvata innlendra aðila til að fjárfesta erlendis og mögulegt aðhaldsstig ríkisfjármála.

Frá síðustu vaxtaákvörðun í nóvember hafa verðbólguvæntingar nokkurn veginn staðið í stað og er því taumhald peningastefnunnar óbreytt. Ef litið er til könnunar á verðbólguvæntingum markaðsaðila frá því í nóvember eru væntingar um ársverðbólgu eftir 1 ár, 5 ár og 10 ár óbreyttar frá síðustu mælingu.

Greininguna í heild sinni má lesa hér.