Bæði Greining Íslandsbanka og Hagfræðideild Landsbankans gera ráð fyrir að peningastefnunefnd Seðlabankans haldi stýrivöxtum bankans óbreyttum á næsta boðaða vaxtaákvörðunardegi þann 11. desember.

Í Hagsjá Landsbankans segir að nýjustu tölur um þróun gengis og verðbólgu séu með þeim hætti að þær kalli ekki á sérstök viðbrögð nefndarinnar. Helstu óvissuþættirnir framundan tengist niðurstöðu kjarasamninga og mögulegum verðbólguhvetjandi áhrifum niðurfærslu höfuðstóls verðtryggðra lána.

Í Morgunkorni Íslandsbanka segir að helstu rök fyrir óbreyttum vöxtum séu að verðbólgan hafi þróast í takti við spá Seðlabankans og að krónan hafi styrkst. Þá hafi óvissunni vegna skuldaniðurfærslu verið eytt. Boðaðar aðgerðir kalli ekki á stýrivaxtahækkun nú.

Hagfræðideild Landsbankans bendir á að í nýrri þjóðhagsspá Hagfræðideildar sé hins vegar gert ráð fyrir að Seðlabankinn hækki vexti tvisvar um 0,25 prósentustig á næsta ári og verði stýrivextir þá í lok næsta árs 6,5%.