Greiningardeild Glitnis spáir því að hagvöxtur verði ögn hægari á næsta ári en þessu ári eða 2,0%. Greiningardeildin birti í morgun Þjóðhagsspá sína fyrir 2007 og 2011 og er óhættt að segja að hún hafi verið með bjartsýnum undirtón rétt eins og spá Landsbankans sem birt var í gær.

Greiningardeild Glitnis telur þó að fyrirséður sé frekari samdráttur í fjárfestingu atvinnuveganna samhliða lokun stóriðjuframkvæmda á Austurlandi en telja að einnig megi reikna með samdrætti í fjárfestingu íbúðarhúsnæðis eftir umtalsverðar framkvæmdir á því sviði undanfarin misseri.

Í inngangserindi sínu benti Lárus Welding, forstjóri Glitnis, á að hátt vaxtastig tefði þróun íslenska fjármálamarkaðarins enda væru Íslendingar í þeirri stöðu núna að stunda útflutning á vöxtum.