Olíuskortur verður á heimsmarkaði á fyrri hluta næsta árs í kjölfar þess að OPEC og aðrir framleiðendur hafa náð samkomulagi um að draga úr framleiðslu, að mati alþjóðlegu orkustofnunarinnar IEA.

Að mati stofnunarinnar munu umframbirgðir olíu dragast saman um í kringum 600 þúsund olíuföt á dag á næstu sex mánuðum á sama tíma og takmarkanir OPEC ríkjanna og bandamanna þeirra munu byrja að hafa áhrif.

Áður höfðu þeir gert ráð fyrir að uppsafnaðar olíubirgðir myndu ekki fara minnkandi fyrr en í lok næsta árs. Að mati stofnunarinnar munu Rússar, sem er stærsti framleiðandinn utan OPEC sem gengist hefur undir samkomulagið, draga smátt og smátt úr sinni framleiðslu til að ná þeirri minnkun sem þeir hafa lofað.

Olíuverð hækkað um 17% í desember

Síðan samkomulagið náðist 30. nóvember síðastliðinn hefur olíuverð hækkað um 17%, en þetta er í fyrsta sinn í átta ár sem samkomulag næst um að draga úr framleiðni. Til viðbótar við OPEC löndin hafa 11 önnur ríki náð samkomulagi um að taka þátt í minnkun framleiðslu, þar á meðal Rússland og Kazakhstan.

„Ef OPEC ríkin munu hratt og örugglega og að fullu leiti, halda í við framleiðslumarkmið sitt,“ segir stofnunin sem staðsett er í París sem og ef aðrir hlutaðilar standi við sitt þá „er markaðurinn líklegur til að ná umframeftirspurn á fyrri hluta ársins 2017.“