Jean-Marie Six, aðalhagfræðingur matsfyrirtækisins Standard og Poor í Evrópu, spáir því að óstöðugleiki á fjármálamörkuðum heimsins muni aukast á næsta ári sökum óvissu á gjaldeyris- og fasteignamörkuðum. Six kynnti horfur S&P fyrir fjármálamarkaði í vikunni og sagði meðal annars að enn væru töluverð hætta á sambærilegum hræringum og skóku svokallaða þróunarmarkaði, þar meðal þann íslenska, fyrr á þessu ári. Líkurnar á slíkum hræringum velta ekki síst hvernig mál þróast í Bandaríkjunum.

S&P spáir að það muni draga úr hagvexti í Bandaríkjunum og að hann verði 2.3% á næsta ári. Samfara því er gert ráð fyrir að Bandaríkjadalur muni halda áfram að veikjast og meðalgildi hans muni verða 1.37 á móti evrunni. Rætist sú spá yrði um sögulegt lágmark að ræða. Á sama tíma er gert ráð fyrir að það dragi úr eftirspurn á bandaríska fasteignamarkaðnum og sú þróun muni einnig eiga sér stað í Evrópu sökum meira framboðs á fasteignum á sama tíma og það dregst úr eftirspurn eftir húsnæði. Sérfræðingar S&P nefna sérstaklega Spán í þessu samhengi.

Þróunin á gengi Bandaríkjadalsins á næsta ári mun ráða miklu um þróun mála á fjármálamörkuðum á næsta ári. Í sumar urðu væntingar um aukna verðbólgu í Bandaríkjunum til þess að hlutabréfamarkaðir víða um heim féllu. Nýmarkaðir fundu hvað mest fyrir þeim óstöðugleika sökum þess að fjárfestar sem höfðu tekið lán á lágum vöxtum í myntum eins og japanska jeninu og fjárfest í nýmörkuðum urðu órólegir. Að mati Six getur það sama ástand komið upp á komandi ári. Líkurnar á því muni ráðast að því hversu mikið Bandaríkjadalur muni veikjast og hvernig seðlabanki landsins muni bregðast við þeirri þróun. Að mati Six hefur aðgengi fjárfesta og fyrirtækja að ódýru fjármagni undanfarin ár gert það að verkum að áhætta hefur ekki verið metin með jafn íhaldsömum hætti og oft áður og sú staðreynd kann að magna upp þær sveiflur sem kunna að ríða yfir markaði á árinu.