Hækkandi olíuverð, ólgan í Mið-Austurlöndum og N-Afríku auk náttúruhamfaranna í Japan valda því að afkoma flugfélaga mun dragast saman um 54% á þessu ári miðað við það síðasta samkvæmt spá IATA, alþjóðasamtökum flugfélaga. Í tilkynningu frá IATA kemur fram að samtökin spái því að samanlagður hagnaður flugfélaga verði um 4 milljarðar dala en samanlagðar tekjur þeirra verði um 596 milljarðar dala og er framlegðin því um 0,7%. IATA spáir því að olíuverð ársins verði að meðaltali 110 dalir/tunnu.

Bloomberg hefur eftir Goh Choon Pong, forstjóra Singapore Airlines, að olíuverð sé mikilvægar kostnaðarþáttur og auk þess ekki innan áhrifasviðs flugiðnaðarins. Þá hefur fréttaveitan eftir Giovanni Bisignani, forseta IATA, að Japan standi fyrir um 10% af öllum seldum flugferðum í heimi og því séu áhrif jarðskjálftans hinn 11. mars mikil.

Samtökin búast enn við því að eftirspurn eftir flugsætum muni aukast en spáir þó minnkandi aukningu miðað við spánna frá því í mars.