Verg landsframleiðsla mun dragast saman um 0,2% í ár, samkvæmt nýútgefinni Þjóðhagsspá Hagstofunnar , en hún hefur ekki dregist saman síðan 2010.

Helsta ástæða samdráttarins er 2,5% samdráttur útflutnings, en áætlað er að framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar verði neikvætt. Fjárfestingu er spáð 5,7% samdrætti í ár, en gert er ráð fyrir 2,4% vexti einkaneyslu, og 1,9% vexti samneyslu.

Gert er ráð fyrir 3,4% verðbólgu í ár, og 1,2% viðskiptaafgangi. Þá er því spáð að gengi krónunnar verði áfram nokkuð stöðugt. Ekki er gert ráð fyrir að niðurstaða kjarasamninga „hafi teljandi áhrif á verðlag umfram það sem áður var reiknað með.“

Á næsta ári er því spáð að hagkerfið taki nokkuð við sér á ný og hagvöxtur verði 2,6%, vegna bata í útflutningi og fjárfestingu; útflutningur vaxi á ný um 2,5%, og fjárfesting um 6,2%. Þá verði vöxtur einkaneyslu 2,8%, og samneyslu 1,3%. Verðbólga verði 3,2%.