Hagfræðideild Landsbankans spáir því að stýrivextir Seðlabankans verði hækkaðir um 0,25 prósentur næstkomandi miðvikudag, þegar tilkynnt verður um ákvörðun peningastefnunefndar bankans.

Veruleg óvissa sé þó um ákvörðunina. „Þar togast á annarsvegar yfirlýsing nefndarinnar frá því í desember að „núverandi vaxtastig virðist um það bil við hæfi á komandi mánuðum“ og hins vegar hröð aukning kjarnaverðbólgunnar, veiking krónunnar og vísbendingar um mun kröftugri hagvöxt á liðnu ári en spáð hafði verið,“ segir deildin.

Mat hennar er að meiri líkur séu á vaxtahækkun upp á 0,25 prósentur en óbreyttum vöxtum. Í ljósi síðustu yfirlýsingar peningastefnunefndar sé þó engan veginn hægt að útiloka óbreytta vexti.