Reginn birtir afkomu fyrir annan ársfjórðung ársins í næstu viku og er það fyrsta birting frá skráningu félagsins í íslensku kauphöllina. Samkvæmt afkomuspár IFS greiningar er búist við að tap verði á rekstri Regins upp á tæpar 55 milljónir króna en félagið skilaði 137 milljóna króna hagnaði á fyrsta ársfjórðungi.

IFS stendur áfram við virðismat sem gefið var út í aðdraganda skráningar þar sem sagt var að virði félagsins væri 9,1 króna á hlut.

Við skráningu var gengi bréfanna 8,2 krónur á hlut og hefur hækkað lítillega síðan. Segir í afkomuspá IFS að til að frumútboð hlutabréfa teljist vel heppnað þurfi gengi bréfanna að hækka í það minnsta um 10-15% í kjölfar skráningar og er nauðsynlegt að hreyfing komist á bréf Regins svo að þetta gangi eftir.