Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Íslandsbanka, kynnti í dag nýja þjóðhagsspá á Fjármálaþingi Íslandsbanka. Í spánni kemur fram að hagvaxtarhorfur hér á landi séu heilt yfir góðar. Er þannig gert ráð fyrir 3,1% hagvexti í ár, 3,2% á næsta ári og 2,9% árið 2016. Hagur fyritækja og heimila muni halda áfram að batna.

Einkaneysla fer vaxandi

Í spánni er ráðgert að einkaneysla muni vaxa nokkuð myndarlega í ár. Greiningin gerir ráð fyrir að einkaneyslan muni að raungildi vaxa um 4,5% á þessu ári, 3,8% á næsta og 2,8% árið 2016. Þá muni kaupmáttur launa vaxa um 3,6% á þessu ári og 2,3% á næsta ári. Er einnig gert ráð fyrir að atvinnuástandið muni halda áfram að batna og atvinnuleysi verði komið niður í 3,3% á árinu 2016 borið saman við 3,7% í ár.

Aukin fjárfesting

Greining Íslandsbanka gerir ráð fyrir að hlutfall fjárfestingar af vergri landsframleiðslu muni í fyrsta sinn frá árinu 2008 ná 20% árið 2016. Telur greiningardeildin það afar jákvætt þar sem fjárfesting leggi grunninn að aukinni framleiðslu og þar með hagvexti þegar fram í sæki.

Innflutningur vex hratt

Í spánni kemur fram að innflutningur muni vaxa hraðar en útflutningur á tímabilinu muni því draga jafnt og þétt úr afgangi af vöru- og þjónustujöfnuði. Batnandi viðskiptakjör hjálpi þó nokkuð til við að draga úr áhrifum þessa, en útlit sé fyrir að sá bati sem þegar hefur orðið á viðskiptakjörum landsins gagnvart útlöndum haldi áfram næstu misserin með verðhækkun helstu útflutningsvara og frekari lækkun olíuverðs.

Óvissa um þróun krónunnar

Greiningardeildin segir að mikil óvissa sé um þróun krónunnar næstu misseri í ljósi greiðslujöfnunarvanda þjóðarbúsins, óvissu um uppgjör búa föllnu fjármálafyrirtækjanna og áhrif fyrirhugaðra tilslakana fjármagnshafta. Er þetta einn stærsti óvissuþáttur greiningarinnar, og byggir spáin á því að tilslakanir á fjármagnshöftunum á tímabilinu verði framkvæmdar með þeim hætti að þær muni ekki raska stöðugleika á gjaldeyrismarkaði. Er spáin þannig byggð á því að gengi krónunnar verði nálægt núverandi gildi út spátímabilið.

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um spána hér .