Verðþróun á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu gæti orðið með svipuðum hætti og í Stokkhólmi og Helsinki eftir kreppurnar þar, að mati Hagfræðideildar Landsbankans. Gangi það eftir gæti verðið hækkað um 21 til 24% til ársloka 2014. Hagfræðideildin spáir því hins vegar að verðið hækki um 8% á tímabilinu.

Þetta kemur fram í Þjóðhag, nýrri hagspá Landsbankans sem kynnt var í dag. Þar segir sömuleiðis að í lok síðasta árs hafi 3.000 íbúðir verið í byggingu á höfuðborgarsvæðinu. Aðeins hafi verið byrjað að byggja 217. Auðar og ónotaðar íbúðir á ýmsum byggingastigum ættu að halda aftur af hækkun fasteignasverðs.

Daníel Svavarsson, forstöðumaður Hagfræðideildarinnar, benti á í umfjöllun sinni um hagspánna, að fjárfesting á fasteignamarkaði muni á næstu tveimur árum snúast um það að fullgera þær íbúðir sem hafi verið í byggingu. Árið 2013 muni fjöldi nýrra íbúðaverkefna aukast að nýju. Hann lagði þó áherslu á að þótt velta sé að aukast á fasteignamarkaði þá miðist viðsnúningurinn við afar lágar tölur.

Í hagspánni er rifjað upp að raunverð íbúðaverðs hafi náð hámarki í október árið 2007 og lækkað um þriðjung síðan þá. Þá hafi nafnverð á fasteignamarkaði lækkað um 8% á milli janúar 2008 og fram að síðasta mánuði. Á sama tíma hefur almennt verðlag hækkað um 36%. Nú er botninum á fasteignamarkaði náð, að mati Hagfræðideildarinnar.