Greiningardeild Arion banka spáir því að geimmyndin Gravity hafi betur í slagi við kvikmyndina 12 Years a Slave á Óskarsverðlaunahátíðinni nú um helgina. Deildin beitti sömu aðferð í fyrra og nú og spáði jöfnum slag á milli myndinna Lincoln og Les Misérables. Sigurmyndin var hins vegar Argo, sem greiningardeild Arion banka taldi eiga 11% sigurlíkur.

Fram kemur í umfjöllun greiningardeildarinnar um óskarsverðlaunin að níu kvikmyndir bítast um aðalverðlaunin á Óskarshátíðinni. Þær eru jafn ólíkar og þær eru margar. Þetta eru myndirnar American Hustle, Captain Phillips, Dallas Buyers Club, Gravity, Her, Nebraska, Philomena, 12 Years a Slave og The Wolf of Wall Street.

Greiningardeild nýtir tölfræðitól sem hagfræðingar hafa útbúið og á að gagnast við að sundurgreina áhrifaþætti einhvers fyrirbæris í fortíð til þess að auðvelda þeim að spá fyrir um þróun þess í framtíð. Þessi tæki nefnast einu nafni hagrannsóknir og nýtir deildin það til að spá fyrir um hver hljóti Óskarinn.

Hvað einkennir sigurvegara?

Greiningardeild segir að á tímabilinu 1984-2004 eftirfarandi atriði einkennd sigurmyndirnar:

  • aðalpersónan var með einhverskonar snilligáfu í 20% sigurmyndanna, en aðeins 5% tapmyndanna. Fötlun skipti minna máli, en aðalpersónan glímdi jafnoft við fötlun í sigurmyndum og tapmyndum tímabilsins, eða í einni af hverjum tíu.
  • aðalpersónan steig á hestbak í 30% sigurmyndanna, en aðeins 10% tapmyndanna.
  • 70% sigurmynda áttu sér stað a.m.k. 20 árum áður en þær voru gefnar út, en 55% tapmynda. Það skipti hinsvegar minna máli hvort umfjöllunarefnið átti sér stoð í raunveruleikanum, en jafnhátt hlutfall sigur- og tapmynda byggðu á raunverulegum atburðum eða manneskjum, eða þrjár af hverjum tíu.
  • fimm klúta grenjumyndir ekki verulega upp á pallborðið; þær voru um 20% tapmynda en aðeins 10% sigurmynda.
  • akademían varginnkeypt fyrir breska heimsveldinu, en 60% sigurmynda skörtuðu leikara frá Bretlandi eða gömlum breskum nýlendum í aðalhlutverki, en aðeins 35% tapmynda.