Stjórnendur suður-kóreska tæknifyrirtækisins Samsung telja viðbúið að rekstrarhagnaður hafi dregist saman á milli ára í byrjun árs. Þrátt fyrir það var gefið í á færibandinu til að verða við meiri eftirspurn en áður eftir ódýrum farsímum. Breska dagblaðið Financial Times segir um afkomu Samsung að eftirspurn eftir meðaldýrum farsímum í Kína, Indlandi og Brasilíu hafi haldið tekjum Samsung uppi á sama tíma og dregið hafi úr eftirspurn eftir dýrari símum.

Afkomuviðvörun Samsung hljóðaði upp á jafnvirði 8 milljarða dala rekstrarhagnaði á fyrsta ársfjórðungi. Umreiknað í íslenskar krónur gera þetta tæplega 900 milljarða. Ef þetta verður niðurstaðan þá er rekstrarhagnaðurinn rétt rúmlega 4,5% lægri en á fyrsta ársfjórðungi í fyrra.

Í Financial Times segir ennfremur að búist sé við því að nýi Samsung-síminn, Galaxy 5 sem kemur á almennan markað á föstudag, muni auka tekjur félagsins á nýjan leik.