Sala á nýjum bílum með þróuðustu og sparneytnustu bensín- og dísilvélunum mun dragast verulega saman á næstunni vegna nýrra reglugerða. Þetta er mat Bílgreinasambandsins, sem spáir að verð á nýjum bílum gæti hækkað um 20-30% grípi stjórnvöld ekki til mótvægisaðgerða.

Umræddar reglugerðir eru nýi alþjóðlegi mengunarstaðallinn WLTP (Worldwide Harmonized Light Vehicles Test Procedure) og leiðbeiningar um innleiðinguna í löndum ESB og EES. WLTP tekur við hlutverki eldri staðla við mælingar á eyðslu eldsneytis og útblæstri koldíoxíðs.

Verðhækkanir eru yfirvofandi á nýjum bensín og díselbílum (þar með töldum Hybrid og Plug-in Hybrid) 1. september næstkomandi og um næstu áramót vegna reglugerðanna. Í tilkynningu frá Bílgreinasambandinu segir að ESB vari við því að breytingarnar leiði til verðhækkana á bílum, þó það sé ekki markmiðið, og að flest nágrannalönd Íslands hafi skoðað mögulegar mótvægisaðgerðir. Til að mynda hafi dönsk stjórnvöld lækkað vörugjöld um það sem nemur verðhækkunum sem ella hlytust af tollflokkabreytingunum.

Að mati Bílgreinasambandsins er nauðsynlegt að stjórnvöld grípi til mótvægisaðgerða sem hamli gegn stórfelldum verðhækkunum á nýjustu bensín- og dísilbílunum. Það væri mjög í þágu ríkissjóðs og ekki síður umhverfisins.