Bílgreinasambandið óvissu í efnahagsmálum í fyrra og kosningaárið hafa valdið því að bílasala dróst nokkuð saman í fyrra. Nú er tíðin hins vegar önnur og betri og spáir sambandið því að sala á nýjum bílum aukist um 15% á þessu ári.

Fram kemur í tilkynningu frá Bílgreinasambandinu að alls voru skráðir 7.274 nýir fólksbílar í fyrra. Þetta var tæplega 8% samdráttur á milli ára. Tölurnar skýrast reyndar af því að um áramótin 2012 til 2013 voru vörugjöld bílaleiga hækkuð, sem olli því að á fimmta hundrað bílaleigubílar voru skráðir seint á árinu 2012 en áttu heima í fyrra hefðu lög um bílaleigur verið óbreytt.

Vonbrigði á seinni hluta síðasta árs

„Árið 2013 fer í sögubækur bílaumboðanna á Íslandi sem ár óvissu og talsverðra sveiflna fyrir okkur í bílgreininni. Fyrri partur ársins var í samræmi við væntingar, þó krónan væri óstöðug, og talsvert veik á fyrstu mánuðum ársins, og seinni hluti ársins voru okkur ákveðin vonbrigði,“ segir Jón Trausti Ólafson, formaður Bílgreinasambandsins, í tilkynningunni.

Bílgreinasambandið spáir því að um 15% söluaukning verði á nýjum bílum á árinu 2014. Það megi rekja til ýmissa þátta, svo sem von um aukin stöðugleika í gjaldmiðlunum, lægri verðbólgu, minna atvinnuleysi og betri efnahagshorfa almennt. Framundan eru aukin umsvif í hagkerfinu, meðal annars vegna framkvæmda í tengslum við ferðaþjónustu, auknum ferðamannastraumi til landsins, sterkri stöðu sjávarútvegs og því að stjórnvöld hafi kynnt aðgerðir til handa heimilum landsins sem draga úr óvissu, og biðstöðu sem uppi hefur verið síðastliðin ár. Þá sé endureikning bílalána að mestu lokið og óvissu í kringum útreikninga þeirra hafi að mörgu leyti verið eytt.