Hagfræðideild Landsbankans spáir því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hækki stýrivexti um 0,5 prósentustig, úr 5,5% í 6,0%, í næstu viku.

Stýrivextir Seðlabankans náðu sögulegu lágmarki í 0,75% í maí á síðasta ári en síðan þá hafa vextir bankans hækkað um 4,75 prósentustig.

„Líklegt er að vaxtahækkunarferlinu sé ekki lokið og mun Seðlabankinn enn þurfa að herða aðhaldið með hækkunum vaxta til þess að koma í veg fyrir að mikil verðbólga festist í sessi,“ segir í hagsjá Landsbankans.

„Mjög mikilvægt er einnig að peningastefnunefnd takist að draga úr verðbólguvæntingum til þess að verðbólga aukist ekki enn frekar. Aðilar hagkerfisins, þ.e. fyrirtæki og heimili, verða að öðlast trú á að Seðlabankanum takist að ná verðbólgu niður í markmið innan ásættanlegs tíma.“

Í þjóðhagsspá Íslandsbanka, sem var birt í byrjun vikunnar, var spáð því að stýrivextir verði í námunda við 6% í lok þessa árs.

Tvær vaxtaákvarðanir hjá peningastefnunefnd Seðlabankans eru boðaðar fyrir áramót; annars vegar á miðvikudaginn næsta, 5. október, og þann 23. nóvember.

Sjá einnig: Verðbólga niður í 9,3%

Hagstofan birti í gær nýjar verðbólgutölur. Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,09% á milli mánaða og hefur nú hækkað um 9,3% á ársgrundvelli. Verðbólgan hjaðnaði því um 0,4 prósentustig frá síðasta mánuði þegar hún mældist 9,7%.

„Líkur á að hámark verðbólgunnar hafi verið nú í júlí teljum við vera mjög miklar og þarf ansi margt að ganga á svo að verðbólga mælist hærri en svo á næstu mánuðum,“ segir hagfræðideild Landsbankans sem telur að miklar verðhækkanir á fasteignamarkaði séu að baki.