Greining Íslandsbanka spáir því að peningastefnunefnd Seðlabankans muni ákveða að hækka stýrivexti bankans um 0,5 prósentustig á næsta vaxtaákvörðunarfundi þann 19. ágúst næstkomandi. Þetta kemur fram í nýju Morgunkorni greiningardeildarinnar.

Peningastefnunefnd mun rökstyðja hækkunina með verri verðbólguhorfum, miklum innlendum launahækkunum og vaxandi spennu í efnahagslífinu, að mati greiningardeildarinnar.

„Spá okkar er í samræmi við þá framsýnu leiðsögn sem finna má í yfirlýsingu og fundargerð peningastefnunefndar vegna síðustu vaxtaákvörðunar nefndarinnar, sem var 10. júní sl. Leiðsögnin sem þar er að finna er nokkuð eindregið á þá leið að framundan eru frekari vaxtahækkanir. Eftir fundinn í ágúst eru þrír vaxtaákvörðunarfundir eftir á árinu. Að okkar mati er frekari vaxtahækkana að vænta á þeim fundum,“ segir í morgunkorninu.

Nánar má lesa um spá Greiningar Íslandsbanka hér .