Greiningardeild Arion banka spáir því að tekjur Icelandair muni aukast um 15% á þessu ári frá árinu á undan. Launakostnaður muni aukast vel umfram framboðsvöxt vegna kjarasamningsbundinna launahækkana og sterkari krónu gagnvart Bandaríkjadal. Á móti muni eldsneytiskostnaður halda áfram að dragast saman, þar sem olíuverð hafi lækkað enn frekar og meðalverð á skiptasamningum einnig lækkað.

Raungerist áætlun greiningardeildarinnar muni eldsneytiskostnaður Icelandair dragast saman um 28% frá árinu 2014, þrátt fyrir að framboðnum sætiskílómetrum hafi fjölgað um 40% á sama tíma.

Mat greiningardeildarinnar er að horfur í rekstri Icelandair inn á þetta ár séu almennt góðar og að það hafi verið staðfest samhliða ársuppgjörinu þegar áætlun félagsins var birt. Áætlunin gerir ráð fyrir að EBITDA ársins verði á bilinu 245-250 milljónir dala, en spá Arion gerir ráð fyrir afkomu á svipuðum slóðum eða EBITDA upp á 253 milljónir dala. Það samsvarar hækkun EBITDA spár um 24 milljónir dala frá virðismati Arion frá því í nóvember.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .