Árshækkun vísitölu neysluverð (VNV) hækkaði um 0,5 prósentustig á milli janúar og febrúar og mældist 6,2% í febrúar. Greiningardeild Íslandsbanka og Hagfræðideild Landsbankans spá því að vísitalan muni hækka um 1,0%-1,1% í mars og að verðbólgan fari upp í 6,8% fyrir vikið. Verðbólgan hefur ekki mælst svo mikil frá því í maí 2010.

„Við teljum að verðbólga verði umtalsverð næstu mánuði en vart þarf að taka fram að óvissan er mikil og aðstæður fljótar að breytast líkt og raunin hefur verið að undanförnu,“ skrifar Bergþóra Baldursdóttir, hagfræðingur Greiningar á vef bankans .

Greiningardeildin telur að húsnæðisliðurinn muni hafi hækka um 0,9% í mars sem myndi þá leiða til 0,3% hækkunar á vísitölu neysluverðs. Bendir hún á að vísitala íbúðaverðs hjá Þjóðskrá hafi hækkað um 2,5% í febrúar en hafa ber þó í huga að sú vísitala nær einungis til höfuðborgarsvæðisins.

„Stýrivextir hafa hækkað og eru nú á sama stað og fyrir faraldur. Hingað til hefur hækkunin ekki haft teljandi áhrif á eftirspurn á íbúðamarkaði. Við teljum líklegt að vegna stýrivaxtahækkana auk annarra aðgerða Seðlabankans muni eftirspurnarþrýstingurinn minnka fyrr en síðar. Þessa dagana er enn mikilvægara fyrir þróun VNV að hægja taki á íbúðaverðshækkunum á næstunni þar sem hægari hækkunartaktur íbúðaverðs mun vega á móti aukinni innfluttri verðbólgu,“ skrifar Bergþóra.

Sá liður sem greiningardeildin spáir hins vegar að muni hafa mestu áhrifin til hækkunar á vísitölu neysluverðs eru ferðir og flutningar sem bankinn áætlar að muni hækka um 2,5% og hafa 0,35% áhrif á VNV. Eldsneytisverð hafi hækkað skarpt í kjölfar stríðsins í Úkraínu og Rússlandi var beitt viðskiptaþvingunum.

„Verðið hefur sveiflast nokkuð að undanförnu en ljóst er samkvæmt mælingum okkar að þessar hækkanir hafi skilað sér hingað til lands.“

Hagfræðideild Landsbankans telur að þeir leiðir sem muni vega langmest til hækkunar verðlags í mars eru föt og skór, íbúðaverð og dæluverð á eldsneyti. Bendir deildin m.a. á að útsölur á fötum og skóm í janúar hafi teygt sig inn í febrúar og áhrif útsöluloka komi því að hluta til fram í mars. Samtals skýri þessir liðir um þrjá fjórðu af heildarhækkun verðlags milli febrúar og mars samkvæmt spánni .

Von er á næsta ákvörðun peningastefnunefndar þann 4. maí næstkomandi en nefndin getur þó boðað fund fyrr. Í febrúar hækkaði hún stýrivexti um 0,75 prósentur og standa þeir nú í 2,75%. Stýrivextir hafa hækkað úr 0,75% í 2,75% frá maí 2021.

Uppfært: Fréttin var uppfærð eftir að hagfræðideild Landsbankans sendi frá sér verðbólguspá.