Verðbólga fer úr 3,1% niður í 2,2% og fer við það undir verðbólgumarkmið Seðlabankans gangi verðbólguspá greiningardeildar Arion banka eftir. Deildin spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,7% á milli mánaða í febrúar. Í verðbólguspánni segir að þyngst vegi að útsöluáhrif munu ganga til baka og hafa 0,5% áhrif til hækkunar á vísitöluna.

Bráðabirgðaspá greiningardeildarinnar hljóðar upp á 0,7% hækkun í mars, 0,4% hækkun í apríl og 0,3% hækkun í maí og að verðbólga verði innan þolmarka verðbólguviðmiðs Seðlabankans (2,5% verðbólga +/- 1,5 prósentur) næstu mánuði.

Í bráðabirgðaspá greiningardeilda Arion banka segir:

„Þegar litið er til þróunar á undirliðum verðbólgunnar er ekki að sjá að margir liðir hafi áhrif til hækkunar um þessar mundir. Innfluttar vörur höfðu áhrif til lækkunar verðbólgu í janúar og er því krónan ekki að valda hækkun á innfluttum vörum framundan ef vel tekst til að halda genginu stöðugu. Einnig virðist lítil hækkun vera á opinberri og almennri þjónustu sem og innlendum vörum. Helst má áætla að húsnæðisverð haldi áfram að hækka og sé líklegasti liðurinn til að halda verðbólgunni hærri en ella. Einnig á eftir að koma í ljós hver niðurstaðan verður í kjaraviðræðum við opinbera starfsmenn. Í bráðabirgðaspá Greiningardeildar til næstu þriggja mánaða er gert ráð fyrir óbreyttu eldsneytisverði og óbreyttu gengi krónunnar. Við áætlum að áhrif húsnæðisliðarins verði meiri í apríl og maí til hækkunar en verið hefur undanfarna mánuði og einnig áætlum við að flugfargjöld hækki í mars. Í skammtímaspánni hækkar verðbólgan í 2,6% í mars, 2,8% í apríl og 3,1% í maí.“