*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Innlent 10. nóvember 2021 09:44

Spá því að verðbólga fari yfir 5%

Greiningardeild Íslandsbanka gerir ráð fyrir að verðbólga hækki úr 4,5% í 5,1% á milli október og nóvember.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Greiningardeild Íslandsbanka spáir því að verðbólgan hækki um 0,6 prósentur á milli mánaða og fara því úr 4,5% í október og verði 5,1% í nóvember. Raungerist spá bankans þá mun verðbólgan ná níu ára hámarki. „Við teljum að verðbólga muni aukast enn frekar á næstu mánuðum áður en hún tekur að hjaðna,“ segir í greiningunni.

Helsta ástæða aukinnar verðbólgu eru sögð vera íbúðaverðshækkanir ásamt innfluttri verðbólgu sem hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu. Bankinn telur að fasteignaverð haldi áfram að hækka á næstu mánuðum áður en hækkandi vextir og aðrar aðgerðir Seðlabankans fari að hafa áhrif.

Greiningardeildin segir að verðbólguhorfur hafi versnað frá síðustu spá sem hún gaf út fyrir rúmum mánuði síðan. Bankinn væntir þess að að verðbólga verði yfir 4% efri mörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabankans út næsta ár. Við stýrivaxtákvörðun í lok ágúst sagðist peningastefnunefnd Seðlabankans gera ráð fyrir að verðbólgan verði komin í markmið á seinni hluta næsta árs.