Ráðgjafafyrirtækið Capacent gerir ráð fyrir því í verðbólguspá sinni að vísitala neysluverðs lækki um 0,32% í janúar. Verðbólgan á ársgrunni muni því lækka úr 3,7% í 3,5%.

Capacent fer í spá sinni yfir þá þætti sem hafa áhrif á vísitölu neysluverðs. Býst fyrirtækið m.a. við því að matvæli muni ekki hækka mikið í janúar og bendir á að búvörur og matvörur með skamman hillutíma, líkt og grænmeti og ávextir, hafi nú þegar tekið út hækkun. Gert sé ráð fyrir 0,35% hækkun matvælaverðs sem hafi 0,4% áhrif á vístölu neysluverðs til hækkunar.

Einnig segir Capacent að rólegra hafi verið á fasteignamarkaði árið 2018 heldur en 2017. Þó sé enn nokkur glóð og eftirspurn virðist meiri en framboð. Gert sé ráð fyrir 0,3% hækkun fasteignaverðs sem hefur 0,06% áhrif á vísitölu neysluverðs til hækkunar.