Vísitala neysluverðs hækkar um 0,5% á milli mánaða og verðbólga fara úr 2,2% í 2,5% nú í apríl, gangi verðbólguspá Greiningar Íslandsbanka eftir. Þetta er nokkuð  meiri hækkun en IFS Greining gerir ráð fyrir en verðbólguspá fyrirtækisins hljóðaði upp á 0,3% hækkun vísitölu neysluverðs og 2,3% verðbólgu í apríl.

Greining Íslandsbanka segir verðbólguhorfur fyrir yfirstandandi ár lítið breyttar. Horfur fyrir næsta ár hafi batnað lítillega þótt gert sé ráð fyrir aukinni verðbólgu á komandi misserum, 2,5% verðbólgu í árslok og 3,4% verðbólgu yfir árið 2015 í stað 3,7% verðbólgu áður.

Greining Íslandsbanka skrifar:

„Það eru fyrst og fremst þrír liðir sem skýra hvers vegna við væntum meiri hækkunar VNV í apríl en í bráðabirgðaspá okkar, sem hljóðaði upp á 0,3% hækkun. Vísbendingar eru um að markaðsverð íbúðarhúsnæðis hafi haldið áfram að hækka undanfarið, og er hækkunartakturinn öllu hraðari en við gerðum áður ráð fyrir. Teljum við nú að reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar markaðsverð að mestu, hækki um 0,75% í apríl (0,10% í VNV). Að viðbættri hækkun á viðhaldskostnaði vegna samningsbundinnar launahækkunar iðnaðarmanna vegur húsnæðisliður VNV til 0,17% hækkunar. Þessu til viðbótar hefur eldsneytisverð hækkað um 2,5% að jafnaði frá marsmánuði samkvæmt mælingu okkar (0,13% í VNV). Einnig bendir verðkönnun okkar til þess að flugfargjöld til útlanda hafi hækkað talsvert þriðja mánuðinn í röð (0,09% í VNV). Samanlagt vega því þessir þrír liðir til 0,4% hækkunar. Aðrir liðir hafa samanlagt áhrif til 0,1% hækkunar í apríl.“