Hagfræðideild Landsbankans spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,3% milli mánaða í mars, en Hagstofan birtir niðurstöður mælinga sinna eftir tvær vikur, eða 27. mars næstkomandi.

Gangi spá bankans eftir lækkar verðbólgan úr 2,4% nú í 2,2%, en í bráðabirgðaspá bankans næstu mánuði á eftir heldur verðbólgan áfram að lækka. Bankinn bendir á að evran sé nú 9,1% dýrari og Bandaríkjadalur 6% dýrari en í síðustu verðkönnunnarviku hans.

Bráðabirgðaspá Landsbankans er að vísitala neysluverðs í hverjum mánuði verði:

  • Apríl: +0,3% milli mánaða, sem þýðir 2,1% ársverðbólga
  • Maí: +0,0% milli mánaða, sem þýðir 1,9% ársverðbólga
  • Júní: +0,3% milli mánaða, sem þýðir 1,8% ársverðbólga

Í síðasta mánuði kom 0,92% hækkun vísitölu neysluverðs í síðasta mánuði Hagfræðideild bankans á óvart, en hún hafði spáð 0,4% hækkun. Munurinn skýrðist helst af því að föt og skór, reiknuð húsaleiga ásamt tómstundum og menningu hækkuðu meira en búist var við, sem og að flugfargjöld til útlanda hækkuðu í verði þvert á væntingar.

Nú býst deildin við að lítil breyting verði á flugfargjöldum til útlanda, en þau hækkuðu um 8,8% milli mánaða í febrúar, en síðustu tvö ár á undan höfðu þau lækkað í þeim mánuði.

Samkvæmt verðkönnun bankans hækkaði hins vegar verð á bensíni og díselolíu um 1,6% milli mánaða, reiknuð húsaleiga hækki um 0,2%, að teknu tilliti til vaxtabreytinga. Loks býst bankinn við að janúarútsölurnar á fötum og skóm gangi til baka.