Greiningardeild Landsbankans spáir því að verðbólga hafi nú þegar náð hámarki sínu. Þá spáir hún því að vísitala neysluverðs muni hækka um 0,4% milli júlí og ágúst en gangi spáin eftir verður ársverðbólgan óbreytt milli mánaða í 9,9%. Þá gerir greiningardeildin ráð fyrir því að strax í september muni verðbólga byrja að hjaðna og að í nóvember gæti hún verið komin niður fyrir 9%.

Fatnaðar- og skókaup munu hafa mest áhrif til hækkunar í ágúst samkvæmt greiningardeild Landsbankans en þá gerir hún einnig ráð fyrir því að kostnaður við að búa í eigin húsnæði muni hækka. Þá er gert ráð fyrir því að eldsneytisverð og flugfargjöld muni lækka á milli mánaða.

Vísitala neysluverðs hækkaði um 1,2% milli mánaða í júlí og mældist því 9,9% í júlí á ársgrunvelli. Er það nokkuð yfir fyrirfram spá bankans sem spáði því að vísitala neysluverðs myndi hækka um 0,5% milli mánaða. Deildin segir muninn skýrast af því að flugfagjöld hækkuðu meira en gert var ráð fyrir.

Þjóðskrá birti hagtölur fyrir júnímánuð í vikunni en samkvæmt þeim hækkaði vísitala íbúðarverðs á höfuðborgarsvæðinu um 1,1% í júlímánuði og hefur þá hækkað um 25,5% á 12 mánaða tímabili.

Sjá einnig: Húsnæðisverð ekki hækkað hraðar frá 2005