Greiningardeild Arion banka spáir því að verðlag standi í stað í nóvember, en Hagstofa Íslands mun birta mælingu á vísitölu neysluverðs þann 26. nóvember næstkomandi.

Gangi spáin eftir segir greiningardeildin að ársverðbólgan muni lækka töluvert milli mánaða og mælast 1,5%. Í spánni vegur þyngst lækkun flugfargjalda en mælingar benda til þess að þau lækki um 12% milli mánaða. Einnig lækkar verð á eldsneyti og mun hafa 0,07% áhrif til lækkunar samkvæmt spánni. Greiningardeildin gerir hins vegar ráð fyrir að fasteignaverð hækki um 0,6% í mánuðinum sem hafi 0,07% áhrif til hækkunar á vísitölunni.

Uppfærð bráðabirgðaspá greiningardeildarinnar felur svo í sér að vísitala neysluverðs hækki um 0,4% í desember en lækki síðan um 0,3% í útsölum í janúar. Þar vegist á útsöluáhrif á nýju ári og hækkun á matvörum vegna hækkunar á neðra virðisaukaskattsþrepi. Í febrúar er gert ráð fyrir að útsöluáhrifin gangi til baka og vísitalan hækki um 0,8%.

Lesa má spá greiningardeildar Arion banka hér .