Gengisspá Greiningardeildar KB banka bendir til þess að krónan muni ná sínu hæsta gildi innan skamms tíma og muni síðan lækka er frá dregur. Raunar gæti krónan veikst töluvert þegar árið 2006 þegar lægri vaxtamunur er rétt handan við hornið auk þess sem fjármögnun viðskiptahallans þyngist. Þeir taka fram að þarna komi vitaskuld til margir óvissuþættir, enda eru gjaldeyrismarkaðir þekktir fyrir órólega hegðun. Líta ber á slíkar gengisspár sem stefnuviðmiðun fyrir krónuna fremur en nákvæma spá fyrir gildi gengisvístölunnar.

Samkvæmt framsýnum væntingum ætti gengi krónunnar ekki að ná hámarki þegar vaxtamunurinn nær hámarki, heldur þegar núvirði framtíðar vaxtamunar mun ná hámarki sem er snemma í vaxtahækkunarferlinu þegar mesti vaxtaþunginn er framundan. Sá tímapunktur gæti reyndar verið nærri. Síðar, þegar vaxtamunurinn hefur náð hámarki ætti krónan að lækka í verði um leið vegna fyrirsjáanlegra vaxtalækkana og minni vaxtamunar við útlönd ? þegar líður að árinu 2006.

Í skýrslunni eru þrjár leiðir notaðar til þess að spá fyrir um gengishreyfingar á næstu 2-3 árum. A) óvarið vaxtajafnvægi, B) raungengisstig og C) kortlagning á gjaldeyrisflæði. Þessar greiningar gefa í aðalatriðum sömu niðurstöður. Gengi krónunnar er mjög hátt nú um stundir vegna væntinga um mikinn vaxtamun við útlönd og erlendrar lántöku.