Greiningardeild Landsbankans gerir ráð fyrir að vísitala neysluverðs hækki um 0,6% í október. Gangi spáin eftir hækkar 12 mánaða verðbólga úr 3,5% í 3,6%. Helstu áhrifaþættir til hækkunar vísitölunnar eru fata- og húsnæðisliðirnir. Áhrif af útsölum voru mikil í júlí og ágúst og lækkaði fatnaðarliður vísitölunnar um tæp 14% á tímabilinu. Lækkunin gekk aðeins að hluta til baka í september þegar liðurinn hækkaði um 7,5%. Áfram er gert ráð fyrir því að útsölulok leiði til hækkunar fatnaðarliðsins og geum við ráð fyrir því að liðurinn hækki um 6,2% frá fyrri mánuði og hafi 0,35% áhrif til hækkunar vísitölunnar. Gert er ráð fyrir áframhaldandi hækkun á húsnæðisliðnum. Aðrir þættir í spánni endurspegla að mestu árstíðarbundnar sveiflur.