Fyrrverandi stjórnarformaður bandaríska seðlabankans, William Mchesney Martin, sagði að hlutverk seðlabanka væri að fjarlægja áfengið um leið og partíið væri að ná hámarki sínu. Ef marka má hagfræðinginn Kevin Daly eru Englandsbanki og bandaríski seðlabankinn báðir farnir að eygja áfengið í viðkomandi hagkerfum og er spurningin aðeins sú hvor þeirra verður fyrri til.

Daly, sem starfar fyrir Goldman Sachs í London, segir í samtali við Bloomberg að líklegast sé að Englandsbanki herði peningastjórnina fyrr með stýrivaxtahækkun á fyrsta ársfjórðungi næsta árs. Bandaríski seðlabankinn muni fylgja í kjölfarið á þriðja ársfjórðungi. Hins vegar spáir Goldman Sachs því að bandaríski seðlabankinn muni hækka stýrivexti hraðar á næstu misserum eftir það, eða um 1,0-1,25 prósentustig á ári á meðan Englandsbanki muni hækka sína vexti um 0,75 prósentustig á ári.