Greiningardeild Íslandsbanka telur líklegt að Seðlabankinn hækki stýrivexti sína um 25 til 50 punkta fyrir útgáfu Peningamála þann 17. september næstkomandi. "Ekki er loku fyrir það skotið að bankinn geri það í þessari viku," segir í Morgunkorni Íslandsbanka. Bankinn hefur þegar hækkað vexti í þremur skrefum að undanförnu, eða úr 5,3% í 6,25%. Hagvöxtur og mikil einkaneysla mælir með hækkun vaxta auk þess sem verðbólga er komin yfir verðbólgumarkmið Seðlabankans.

Í Morgunkorninu er bent á að verðbólguþrýstingur hefur aukist og sett efri þolmörk peningastefnunnar í hættu. Langtímavextir hafa lækkað á síðustu vikum og útlán hafa aukist að undanförnu. Líkur eru á bylgju endurfjármögnunar íbúðarlána í gegnum bankakerfið á næstunni. Allt ofantalið hlýtur að mæla með vaxtahækkun Seðlabankans. Þá hafa verðbólguvæntingar almennings aukist töluvert að undanförnu. Staðan á vinnumarkaði letur hins vegar Seðlabankann til vaxtahækkunar. Árstíðarleiðrétt atvinnuleysi hefur aukist lítillega í sumar þvert á væntingar um hið gagnstæða. Mikill framleiðnivöxtur og innfutningur á vinnuafli virðist ásamt öðrum þáttum liggja þar að baki.